Körfubolti

Meistarar Miami niðurlægðir á heimavelli

Leikmenn Miami voru auðmýktir á heimavelli sínum í kvöld
Leikmenn Miami voru auðmýktir á heimavelli sínum í kvöld NordicPhotos/GettyImages

NBA meistarar Miami Heat eru úr leik í fyrstu umferð úrslitakeppninnar eftir 92-79 tap á heimavelli gegn frísku liði Chicago Bulls. Miami tapaði því einvíginu 4-0 og var liðið bókstaflega niðurlægt af sterkari andstæðingi. Leikurinn var sýndur beint á Sýn Extra.

Ben Gordon skoraði 24 stig fyrir Chicago, Luol Deng skoraði 22 stig og hirti 11 fráköst og Ben Wallace skoraði 13 stig og hirti 11 fráköst - og hitti meira að segja úr 7 af 8 vítaskotum sínum. Dwyane Wade skoraði 24 stig og gaf 10 stoðsendingar fyrir Miami, Shaquille O´Neal skoraði 16 stig og Alonzo Mourning skoraði 14 stig.

Miami liðið sýndi aldrei sitt rétta andlit í einvíginu og þó meiðsli hafi sett svip sinn á tímabilið hjá liðinu, er ljóst að þar á bæ verða eflaust gerðar miklar breytingar í sumar. Chicago er hinsvegar á fínu flugi og vann í dag fyrstu seríu sína í úrslitakeppni síðan liðið lagði Utah Jazz í lokaúrslitum deildarinnar árið 1998.

Þetta var í fyrsta sinn síðan árið 2000 sem ríkjandi meistarar í NBA falla úr keppni í fyrstu umferð, en það kom þá fyrir San Antonio þegar liðið tapaði fyrir Phoenix. Þá var Scott Skiles þjálfari Chicago einmitt þjálfari Phoenix-liðsins.

Miami hélt í veika von um að verða fyrsta liðið af þeim 79 sem lent hafa undir 3-0 til að snúa einvígi sér í hag - en til þess var leikur liðsins einfaldlega allt of brothættur. Chicago fær mjög erfitt verkefni í næstu umferð þar sem liðið mætir Detroit Pistons.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×