Körfubolti

Fékk 30 milljónir fyrir hvern spilaðan leik

Grant Hill var á sínum tíma einn allra besti leikmaður NBA deildarinnar
Grant Hill var á sínum tíma einn allra besti leikmaður NBA deildarinnar NordicPhotos/GettyImages

Framherjinn Grant Hill hjá Orlando Magic sagðist í gær vera að íhuga að leggja skóna á hilluna í sumar. Lið hans féll úr úrslitakeppninni fyrir Detroit í gær og Hill er með lausa samninga í sumar. Ferill kappans hefur einkennst af erfiðri baráttu við meiðsli, en hann þarf þó ekki að hafa áhyggjur af peningamálunum.

Hill var einn allra besti leikmaður NBA deildarinnar á síðasta áratug og eftir að hafa leikið fyrstu árin á ferlinum með Detroit, skrifaði hann undir sjö ára samning við Orlando árið 2000 upp á 93 milljónir dollara. Hill spilaði aðeins 4, 14 og 29 leiki fyrstu þrjú ár sín með liðinu vegna þrálátra ökklameiðsla og ekki einn einasta leik á fjórða tímabilinu. Hugleiddi hann þá oft að leggja skóna á hilluna en þraukaði í endurhæfingunni og hefur náð að leggja sitt af mörkum síðustu tvö tímabil.

Hill hefur því aðeins spilað 200 leiki af 574 mögulegum á samningstímanum og það þýðir að hann hefur fengið um 30 milljónir króna fyrir hvern spilaðan leik með Orlando. Hill vill ólmur launa Orlando þolinmæðina og segist vilja semja við félagið á ný, en margir telja þó líklegt að hann muni freista þess að komast að hjá liði sem á möguleika á að vinna meistaratitilinn á næsta ári - og þá jafnvel á miklu lægri launum en hann hefur þegið hingað til. Hill verður 35 ára gamall í nóvember og var með 14,4 stig að meðaltali í leik í vetur, 3,6 fráköst og 2,1 stoðsendingu.  

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×