Körfubolti

Dýrmætir sigrar hjá Jazz og Lakers

Kobe Bryant var sjóðheitur í nótt og hitti úr 15 af 26 skotum sínum og öllum 13 vítunum sem hann fékk í leiknum
Kobe Bryant var sjóðheitur í nótt og hitti úr 15 af 26 skotum sínum og öllum 13 vítunum sem hann fékk í leiknum NordicPhotos/GettyImages

Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt. LA Lakers minnkaði muninn í einvígi sínu við Phoenix í 2-1 með góðum heimasigri og sömu sögu var að segja af Utah gegn Houston. Lið Detroit Pistons er hinsvegar komið í afar vænlega stöðu gegn Orlando Magic og hefur yfir 3-0 eftir góðan útisigur í nótt.

Kobe Bryant átti stórleik fyrir LA Lakers þegar liðið skellti Phoenix á heimavelli 95-89. Bryant skoraði 45 stig fyrir Lakers, Kwame Brown skoraði 19 stig og Lamar Odom skoraði 18 stig og hirti 16 fráköst. Amare Stoudemire skoraði 24 stig og hirti 10 fráköst fyrir Phoenix og Leandro Barbosa skoraði 20 stig. Phoenix leiðir 2-1 í einvíginu.

Utah lagði Houston 81-67 á heimavelli sínum í gríðarlegum baráttuleik tveggja sterkra varna. Heimamenn voru lengst af skrefinu á undan, en náðu þó ekki að gulltryggja sigurinn fyrr en undir lokin. Carlos Boozer var aftur besti maður Utah með 22 stig og 12 fráköst, en Yao Ming skoraði megnið af 26 stigum sínum fyrir Houston af vítalínunni. Tracy McGrady var heitur í byrjun leiks en endaði með 24 stig. Aðeins fjórir leikmenn Houston komust á blað í leiknum og varamenn Utah skoruðu 33 stig gegn engu stigi varamanna Houston. Houston leiðir 2-1 í einvíginu og næsti leikur fer fram í Utah á laugardagskvöldið.

Detroit var langt frá sínu besta í þriðja leiknum gegn Orlando en hafði samt sigur á útivelli 93-77. Tayshaun Prince skoraði 23 stig fyrir Detroit og Chauncey Billups 21, en Jameer Nelson var langatkvæðamestur hjá Orlando með 27 stig. Detroit leiðir 3-0 í einvíginu og getur komist í næstu umferð með sigri í næsta leik í Orlando.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×