Fótbolti

Sálfræðistríðið heldur áfram

NordicPhotos/GettyImages

Sálfræðistríð þeirra Rafa Benitez og Jose Mourinho hefur nú náð hámarki fyrir fyrri leik Chelsea og Liverpool í undanúrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Leikurinn verður að sjálfssögðu sýndur beint á sjónvarpsstöðinni Sýn og hefst útsending klukkan 18:30 að lokinni upphitun með Guðna Bergs.

Jose Mourinho hafði orð á því á blaðamannafundi í gær að hann óttaðist að leikmenn Liverpool ættu eftir að reyna allt sem þeir gætu til að fiska gult spjald á framherjann Didier Drogba í fyrri leiknum - en það myndi þýða að hann yrði í banni í þeim síðari.

Benitez tók ekki vel í þessa pillu frá kollega sínum. "Ég veit ekki af hverju maðurinn heldur svona löguðu fram. Kannski er það vegna þess að fyrir tveimur árum voru hans menn að reyna þetta nákvæmlega sama við Xabi Alonso," sagði Benitez og sakaði Mourinho um að reyna að hafa áhrif á dómarann Markus Merk.

"Dómarinn vinnur sína vinnu og þarf enga að stoð við það. Ef Drogba á skilið að fá gult spjald - þá fær hann gult spjald. Það gilda sömu reglur fyrir alla leikmenn," sagði Benitez.

Mourinho skvetti meira bensíni á eldinn í gær þegar hann var spurður út í árangur Liverpool undanfarin ár, en þá svaraði hann því til að Liverpool væri bara lið sem sérhæfði sig í að vinna bikarkeppnir. "Ég er hræddur um að ég væri ekki með vinnu í dag ef ég skilaði ekki einum einasta meistaratitli í hús á síðustu þremur árum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×