Fótbolti

Beckham lagði upp sigurmarkið fyrir Ramos

Sergio Ramos skoraði sigurmark Real Madrid í kvöld.
Sergio Ramos skoraði sigurmark Real Madrid í kvöld. MYND/AFP

Real Madrid vann góðan sigur á Valencia á heimavelli sínum í spænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Úrslitin urðu 2-1, Real í vil, en það var varnarmaðurinn Sergio Ramos sem skoraði sigurmarkið á 73. mínútu eftir frábæra sendingu David Beckham úr aukaspyrnu. Með sigrinum kemst Real upp í 2. sæti deildarinnar.

Ruud van Nistelrooy kom Real Madrid yfir á 18. mínútu leiksins en Fernando Morientes, fyrrum leikmaður Real, jafnaði metin á 53. mínútu. Það var síðan Ramos sem skoraði markið sem skildi liðin að þegar rúmur stundarfjórðungur var til leiksloka. Hann skoraði með skalla eftir magnaða sendingu David Beckham en hann hafði nokkrum mínútum áður komið inn á sem varamaður. Þetta var fyrsti leikur Beckham í nokkrar vikur en hann hefur verið frá vegna meiðsla.

Real Madrid er nú komið með 57 stig í öðru sæti deildarinnr, en Barcelona er efst með 59 stig og á auk þess leik til góða gegn Villareal á morgun. Sevilla er í 3. sæti með 55 stig og Valencia er í því fjórða með 53 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×