Fótbolti

Real neitar að hafa rætt við Benitez

NordicPhotos/GettyImages

Forráðamenn Real Madrid vísa því á bug í dag að hafa boðið Rafa Benitez hjá Liverpool að taka við liðinu í sumar. Benitez greindi frá því í gær að hann hefði neitað risatilboði frá stórliðinu í heimaborg sinni.

"Varðandi yfirlýsingu sem höfð var eftir Rafael Benitez í fjölmiðlum í gær vill knattspyrnufélagið Real Madrid taka það fram að engar viðræður áttu sér stað milli Benitez og félagsins. Real Madrid ætlar að virða þau tvö ár sem eftir eru af samningi hins virta þjálfara Fabio Capello," sagði í yfirlýsingunni.

Þetta kemur þvert á fréttir þýskra fjölmiðla í vikunni, en þar var fullyrt að þjálfarinn Bernd Schuster hjá Getafe hefði þegar skrifað upp á samning þar sem hann lofaði að taka við Real í sumar. Sá samningur á að hafa innihaldið klásúlu sem lofaði Schuster einni milljón evra í skaðabætur ef hann fengi ekki starfið - og á sama hátt átti hann að greiða spænska félaginu eina milljón evra ef hann stæði ekki við samninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×