Erlent

Þrír starfsmenn í íraska þinghúsinu yfirheyrðir

Íraska þingið fordæmdi í morgun sjálfsmorðssprengjuárás sem gerð var í þinghúsinu í Bagdad í gær. Einn þingmaður lét lífið í árásinni og tuttugu og tveir særðust. Þrír starfsmenn mötuneytis þingsins hafa verið yfirheyrðir í morgun vegna árásarinnar.

Mohammed Awad, þingmanns úr röðum súnníta, var minnst við upphaf þingfundar í morgun með mínútuþögn.

Mahmoud al-Mashhadani, forseti þingsins, sagði íraska þingið, ríkisstjórnina og fólkið í landinu vera eina órjúfanlega heild. Öll væru þau á sama skipinu og ef skipinu væri sökkt myndu allir sökkva með því og það myndi aldrei gerast. Eina skipið sem myndi sökkva væri skip hryðjuverka- og glæpamanna.

Fámennt var í þingsalnum í dag þar sem margir áttu ekki heimangengt vegna útgöngubanns sem í gildi er.

Fyrstu fréttir hermdu að átta hefðu beðið bana í árásinni, þar af þrír þingmenn, og fjölmargir slasast. Bandaríski herinn sendi frá sér yfirlýsingu í morgun þar sem fram kemur að tala látinna hafi ekki verið eins há og haldið var í fyrstu. Aðeins einn þingmaður hafi látið lífið og tuttugu og tveir særst.

Þinghúsið er á græna svæðinu í Bagdad en Bandaríkjamenn fara með öryggisgæslu á svæðinu. Hvergi annars staðar í Írak finnst jafn ströng öryggisgæsla og þar er. Ekki er vitað hvernig árásarmanninum tókst að komast inn í þinghúsið. Lögreglan hefur í dag yfirheyrt þrjá starfsmenn sem störfuðu í mötuneyti í þinghúsinu þar sprengjan sprakk.

Öryggisgæsla í þinghúsinu hefur verið færð í hendur innanríkisráðherra landsins en einkafyrirtæki sá um gæsluna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×