Fótbolti

Ancelotti: United er sterkara núna

NordicPhotos/GettyImages

Carlo Ancelotti, þjálfari AC Milan, segist hlakka mikið til að mæta Manchester United í undanúrslitum Meistaradeildarinnar, þar sem ítalska liðið verður nú í fjórða sinn á síðustu fimm árum. Ancelotti segir Manchester United mun sterkara nú en fyrir tveimur árum, þegar Milan vann báða leiki liðanna.

"Sú staðreynd að það skuli verið þrjú lið í undanúrslitunum frá Englandi segir sína sögu um styrk þeirra. United hefur hraða, hættulegar skyndisóknir og frábæra vörn. Það er með allt aðra styrkleika en Bayern Munchen, en við unnum þá tvisvar fyrir tveimur árum og eigum síðari leikinn á heimavelli. Ég held að United sé mun sterkara nú en það var þá, því liðið hefur bæði snjalla og reynda menn innanborðs.

Gennaro Gattuso var mjög ánægður með sigurinn á Bayern í kvöld og sagði árangur liðsins á síðustu árum bera þess merki að hér væri stórlið á ferðinni. "Við erum að spila fjórða undanúrslitaleik okkar á fimm árum og ef það er ekki afrek stórliðs - veit ég ekki hvað það er," sagði miðjumaðurinn grjótharði, sem hljóp manna mest á vellinum í Munchen í kvöld (11,4 kílómetra), þrátt fyrir að sitja á bekknum síðustu 10 mínúturnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×