Fótbolti

Mourinho: Besti útisigur liðsins í þrjú ár

NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho var alsæll með leik sinna manna í Chelsea í kvöld þegar liðið gerði sér lítið fyrir og lagði Valencia 2-1 á útivelli í síðari leik liðanna í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Sigur Chelsea var fyllilega verðskuldaður og engu líkara en eitt lið væri á vellinum í síðari hálfleik.

"Síðari hálfleikurinn var stórkostlegur og við pressuðum þá stíft þó við værum að tapa 1-0. Ég var farinn að undirbúa mig fyrir framlengingu en við áttum svo sannarlega skilið að fara áfram í venjulegum leiktíma, því Valencia fékk engin færi í hálfleiknum. Þetta var sennilega besta frammistaða liðsins á útivelli síðan ég tók við og það er hreint ótrúlegt hvað þessi hópur er að afreka á tímabilinu," sagði Mourinho. John Terry sagði að stjórinn hefði talað rækilega yfir sínum mönnum í hálfleik.

"Hann er glaður núna - en hann var það ekki í hálfleik," sagði Terry þegar stjóri hans stökk á hann í miðju viðtali eftir leikinn. "Við stóðum okkur ekki vel í fyrri hálfleiknum og hann gaf okkur spark í afturendann.. Við sögðum fyrir leikinn að það breytti engu þó þeir myndu skora og það kom á daginn. Við héldum alltaf áfram að berjast og það skilaði sér - því við vorum miklu betri í þessum leik," sagði fyrirliðinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×