Fótbolti

Eiður Smári er ekki á leið til Manchester United

AFP

Arnór Guðjohnsen, umboðsmaður Eiðs Smára Guðjohnsen, segir í samtali við Sky sjónvarpsstöðina í dag að ekkert sé til í skrifum spænsku blaðanna sem orðuðu hann við Manchester United í dag.

Eiður hefur ekki átt fast sæti í liði Barcelona að undanförnu og spænsku blöðin hafa gert því skóna að hann fari til United í sumar. Arnór faðir hans segir hann hinsvegar ætla að berjast fyrir sæti sínu hjá Katalóníuliðinu.

"Ég hef ekkert heyrt um áhuga Manchester United á að fá hann. Hann hefur ekki fengið að spila mikið undanfarið en ég hef ekkert heyrt frá forráðamönnum félagsins. Eiður er staðráðinn í að berjast fyrir sæti sínu hjá Barcelona og vill leggja sig allan fram í að ná árangri," sagði Arnór í samtali við Sky.

Txiki Beguristain, yfirmaður íþróttamála hjá Barcelona, segir félagið ekki ætla að skoða leikmannamál fyrr en keppnistímabilinu lýkur á Spáni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×