Fótbolti

Ferguson hefur trú á sínum mönnum

NordicPhotos/GettyImages

Sir Alex Ferguson segist ekki hafa áhyggjur af öðru en að hans menn í Manchester United muni svara kallinu þegar þeir mæta Roma öðru sinni í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar í kvöld. Hann segist heldur ekki hafa áhyggjur af öryggismálum á vellinum eftir að uppúr sauð á fyrri leiknum í Róm.

"Við erum vanir að bregðast vel við því þegar við töpum leikjum og við verðum að sækja harðar á þá en við gerðum í fyrri leiknum. Við munum skapa okkur færi í þessum leik og ef við nýtum þau - eigum við góða möguleika á að fara áfram í undanúrslitin," sagði Ferguson, en hans menn töpuðu fyrri leiknum 2-1 eftir að hafa verið 10 á vellinum allan síðari hálfleikinn.

"Ég á heldur ekki von á að verði ólæti í stúkunni. Öryggisgæslan á Old Trafford er mjög góð og svo eru stuðningsmenn Roma ekki vanir að vera með óspektir," sagði Ferguson.

Fyrsta flugvélin með stuðningmenn Roma mætti til Manchester klukkan 9 í morgun með yfir 300 stuðningsmenn innanborðs og reiknað er með 13 flugélum í allt og um 3,800 stuðningsmönnum ítalska liðsins á völlinn í kvöld. Leikurinn verður að sjálfssögðu sýndur beint á Sýn og hefst útsending 18:30 á eftir þætti Guðna Bergssonar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×