Innlent

Árásarpiltarnir ákærðir á næstunni

Kæra á hendur piltunum þremur, sem frömdu hrottalega líkamsárás í Garðarstræti á nýársnótt, verður send til ákærusviðs lögreglu á næstunni. Piltarnir, sem allir eru ungir að árum, geta átt yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi.

Fyrst eftir árásina var ekki vitað hverjir árásarmennirnir voru en eftir að sjónvarpsstöðvarnar höfðu sýnt upptökur af atburðarásinni úr eftirlitsmyndavél komu foreldrar piltanna, sem eru 16 og 17 ára, með þá lögreglustöð. Við yfirheyrslur játuðu þeir á sig að hafa ráðist á tvo unga menn í Garðastræti og veitt öðrum mjög alvarlegan áverka, en hann höfuðkúpubrotnaði. Árásin var tilefnislaus og óvanalega hrottaleg en mennirnir eru sagðir hafa sparkað ítrekað í fórnarlömb sín eftir að þau misstu meðvitund. Árásarmennirnir sem voru ölvaðir skildu við mennina tvo meðvitundarlausa í götunni.

Einn árásarpiltanna er aðeins 16 ára og hinir tveir eru 17. Barnaverndaryfirvöldum var gert viðvart, en þeir eru þó allir orðnir sakhæfir, en það gerist við 15 ára aldur. Piltarnir þrír hafa ekki áður gerst bortlegir við lög eða verið til vandræða. Rannsókn málsins er lokið en aðeins er beðið eftir áverkavottorði frá öðru fórnarlambinu. Þegar það berst lögreglu verður málið sent til ákærusviðs lögreglunnar og gefin úr ákæra á hendur mönnunum. Mennirnir verða ákærðir fyrir brot á 218. grein almennra hegningarlaga en samkvæmt þeim geta þeir átt yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi




Fleiri fréttir

Sjá meira


×