Innlent

Sigrún Eldjárn hlaut Sögusteininn 2007

Sigrún Eldjárn með eina bóka sinna.
Sigrún Eldjárn með eina bóka sinna.

Sigrún Eldjárn er fyrsti verðlaunahafi barnabókaverðlaunanna Sögusteins árið 2007. Verðlaunin voru veitt í fyrsta sinn í dag á alþjóðlegum degi barnabókarinnar. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálráðherra afhenti Sigrúnu verðlaunin, en það var einróma álit dómnefndar að hún hlyti verðlaunin að þessu sinni.

Það eru bókmenntaverðlaun IBBY á Íslandi og Glitnir sem standa að verðlaununum. Verðlaunafé eru 500 þúsund krónur auk verðlaunagrips sem hannaður er af Önnu Þóru Árnadóttur.

Í greinargerð dómnefndar segir að framlag Sigrúnar til íslenskra barnabókmennta liggi bæði í hennar eigin textum og myndlýsingum við þá, auk myndlýsinga við texta annarra höfunda. Bækur hennar telja hátt á fjórða tug og; „skilja eftir sig lifandi myndir sem börn kalla auðveldlega fram í huganum og vísa jafnvel til," segir í fréttatilkynningu. Bækur Sigrúnar hafi tryggt henni sess sem eins fremsta barnabókahöfundar á Íslandi.

Verðlaunin eru veitt rithöfundi, myndlistarmanni eða þýðanda; „sem með höfundarverki sínu hefur auðgað íslenskar barnabókmenntir."

Dómnefnd var skipuð Önnu Heiðu Pálsdóttur, bókmenntafræðingi, Ármanni Jakobssyni, bókmenntafræðingi og Rögnu Sigurðardóttur, myndlistarkonu og rithöfundi.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×