Innlent

Stórtjón í fárviðri á Akureyri

Stórtjón varð á Akureyri í gærkvöld þegar þakdúkur fauk af fjölbýlishúsi í fárviðri. Minnstu munaði að íbúi stórslasaðist í hamaganginum, vatn streymdi inn í íbúðir og íbúar sváfu ekki dúr.

Brjálaðan storm gerði á Akureyri í gærkvöld og á ellefta tímanum dró til tíðinda hér við Heiðarlund 1. Húseigendur veittu því athygli að mikill gúlpur var kominn á dúk sem lá yfir þakinu og sekúndum eftir að íbúi steig niður úr stiga eftir að hafa kannað málið flaug þakið af húsinu.

Tjónið er margþætt. Dúkurinn skall á bílum og rispaðist þessi illa. Þá virðast vatnsskemmdir verulegar en regnvatn streymdi inn á efri hæðir íbúanna, skemmdi parket og fluttu foreldrar grátandi börn milli hæða sem og helstu verðmæti. Í þessari íbúð hugsaði ung stúlka helst um að bjarga dúkkunni sinni en drengnum þótti mestu verðmætin í rafmagnsgítar og tölvu. Þessi maður varð vitni að því þegar þakdúkurinn rifnaði af.

Og íbúar segjast sjaldan eða aldrei hafa heyrt annan eins hávaða á ævinni og þegar ósköpin dundu yfir. Björgunarsveitarmenn og íbúar unnu að viðgerðum á þakinu í nótt og í dag. Ekki er búið að meta tjónið en það gæti hlaupið á tugum milljóna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×