Innlent

Dagvistarrýmum fjölgað um 75

MYND/Visir

Siv Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fjölga davistar-og hvíldarrýmum fyrir aldraða á næstu mánuðum. Alls verður 370 milljónum króna varið til verkefnisins. Því er ætlað að styrkja búsetu aldraðra á eigin heimilum.

Dagvistarrýmum verður fjölgað um 75, en fyrir eru þau um 700 á landinu öllu. Af nýju rýmunum verða 44 sérstaklega ætluð heilabiluðum og verður stærstur hluti þeirra á höfuðborgarsvæðinu. Nú eru eru þau 129.

Almennu dagvistarrýmunum verður hins vegar komið fyrir víða um land. Þá verður hvíldarrýmum einnig fjölgað og bætast við 23 slík um landið.

Nú er unnið að gerð áætlunar um staðsetningu rýmanna.

Þá er áætlað að hjúkrunarrýmum muni fjölga um 374 á næstu fjórum árum með fjölgun hjúkrunarheimila. Nýtt heimili mun rísa á Lýsislóðinni á Seltjarnarnesi, 20 hjúkrunarrými bætast við í Árborg, 44 í Kópavogi, 20 í Mosfellsbæ, 30 í Reykjanesbæ, 30 í Hafnarfirði 10 í ísafjarðarbæ og 20 í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×