Innlent

Hætta við að lögsækja Dani

MYND/Getty Images

Evrópusambandið hefur ákveðið að hætta við lögsókn gegn stjórnvöldum í Danmörku vegna löggjafar sem takmarkar transfitusýrur í mat. Samkvæmt lögunum mega matvæli seld í Danmörku ekki innihalda meira en 2g af transfitusýrum í hverjum 100g. Það er tæplega helmingur þess magns sem Íslendingar borða af fitusýrum á dag samkvæmt könnun Manneldisráðs. Þetta kemur fram á vef Neytendasamtakanna.

Matvælaframleiðendur í Evrópu töldu löggjöfina vera viðskiptahindrun og hindra frjálst flæði milli landa. Þeir brugðust illa við og í framhaldinu ákvað framkvæmdaráð Evrópusambandsins að fara í mál.

Danir telja Evrópusambandið hafa hætt við málsókn af því löggjöfin sé byggð á traustum vísindalegum gögnum.

Sannanir eru fyrir því að tansfitusýrur séu skaðlegar heilsu fólks og ónauðsynlegar í matvöru.

Evrópusamtök neytenda fordæmdu lögsóknina og töldu löggjöfina tryggja hagsmuni neytenda. Þau krefjast þess nú að önnur Evrópulönd fylgi fordæmi Dana.

Neytendasamtökin hvetja íslensk stjórnvöld til að gera slíkt hið sama og setja lög sem taki mið af dönsku löggjöfinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×