Innlent

Akureyrarsjónvarp um land allt

Sjónvarpsstöðin N4, sem sent hefur út frá Akureyri undanfarin ár, hyggst hefja útsendingar á landsvísu á næstu vikum. Stjórnarformaður N- fjögurra segir sjónvarpsstöðina þá einu utan höfuðborgarsvæðisins sem haldi úti reglulegum fréttatímum á virkum dögum.

Sjónvarpsstöðin hefur verið send út á Akureyri í 11 ár. Í fyrra var hún svo sameinuð þremur öðrum fjölmiðlafyrirtækjum undir nafninu N4. Fjölmiðlafyrirtækin þrjú komu meðal annars að blaðaútgáfu og auglýsinga- og þáttagerð. Steinþór Ólafsson stjórnarformaður N4 segir mörg sóknarfæri í því að senda stöðina út á landsvísu á digital Íslandi.

Steinþór segir að með fleiri áhorfendum fáist meiri auglýsingatekjur og þannig sé hægt að efla sjónvarpsstöðina enn frekar. Til stendur að efla þáttagerð og fréttatíma á sjónvarpsstöðinni. En hafa allir á landinu áhuga á lítilli bæjarstöð? „Jú jú öðruvísi værum við ekki að gera þetta en það verður svo bara að koma í ljós hvort landsbyggðin tekur okkur vel eða ekki. Við teljum það jákvætt að stækka dreifingarsvæðið. Á Eyjafjarðarsvæðinu búa sjálfsagt um tuttugu og fimm þúsund manns og síðan getum við teygt okkur bæði austur og vestur,." segir Steinþór og bætir við að ekki liggi fyrir kostnaður við stækkun sjónvarpsstöðvarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×