Innlent

Umhverfisráðherra undirritar sáttmála Framtíðarlandsins

Umhverfisráðherra, Jónína Bjartmarz, hefur skrifað undir sáttmála Framtíðarlandsins, fyrst stjórnarþingmanna. Á fjórða þúsund höfðu nú síðdegis undirritað sáttmálann.

Á heimasíðu umhverfisráðherra segir hún sáttmálann vera jákvæða og framsækna sýn á framtíðina. Skrifað stendur í sáttmálanum að lögfesta skuli áætlanir um náttúruvernd áður en nokkuð frekar er aðhafst í orkuvinnslu. Hann gengur því öllu lengra en þjóðarsáttin um nýtingu og verndun auðlinda í jörðu sem Framsóknarráðherrarnir Jónína og Jón Sigurðsson kynntu fyrir rúmum mánuði. Þau voru þá gagnrýnd fyrir að slá ryki í augu almennings - því áætlunin yrði ekki til fyrr en eftir þrjú ár og fram að því hefðu menn frítt spil til virkjanaframkvæmda.

Jónína gerir enda þrjá fyrirvara við forsendur sáttmála Framtíðarlandsins, meðal annars að margir virkjanakostir sem hafi lítil umhverfisáhrif séu þegar komnir í framkvæmd eða framkvæmdir að hefjast.

Tveir þingmenn, Magnús Þór Hafsteinsson og Sturla Böðvarsson, urðu fyrir mistök grænir á heimasíðu Framtíðarlandsins í dag en þeir urðu snarlega gráir að nýju þegar aðstandendum síðunnar var gert viðvart.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×