Innlent

Ísland næst frjósamast

MYND/Getty Images

Fjölgun er milli ára á fæðingum á Íslandi og er hlutfallið 51 prósent drengir og 49 prósent stúlkur. Ísland er í öðru sæti þegar kemur að frjósemi kvenna í Evrópu. Hins vegar fæðast fleiri börn utan hjónabands hérlendis en í nokkru öðru Evrópuríki. Fæðingaraldur hækkar jafnt og þétt og er nú 25-29 ára en var 20-24 ára fram til 1980.

Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar um fæðingar á Íslandi 2006.

Á síðasta ári fæddust 4.415 börn á Íslandi. Rúmlega 51 prósent voru drengir, en stúlkur tæp 49 prósent. Þetta er fjölgun frá árinu áður þegar 4.280 börn fæddust hér.

Dregið hefur úr frjósemi í öllum Evrópulöndum. Hérlendis hefur frjósemi verið fremur stöðug síðasta áratug, um 2 börn á konu. Nú er Ísland í öðru sæti með 2,07 börn miðað við 2,05 árið 2005. Þá er átt við fjölda lifandi fæddra barna á hverja konu. Einungis eitt Evrópuland er með meiri frjósemi en Ísland,Tyrkland var með frjósemi 2,2 en frjósemi hérlendis má einkum rekja til aðkomufólks.

Frjósemi mælist nú minnst í Austur-Evrópulöndum, en þar er frjósemi á bilinu 1,2 - 1,3.

Athygli vekur að frjósemi á Norðurlöndum er há miðað við önnur Evrópulönd og er lækkunin mun hægari en í öðrum löndum Evrópu. Fyrir utan Ísland er frjósemi á Norðurlöndunum 1,8.

Sífellt sjaldgæfara er að konur eigi börn áður en þær ná 25 ára aldri. Á sjöunda og áttunda áratugnum var meðalaldur frumbyrja tæplega 22 ár, en er nú 26,4 ár.

Algengasti fæðingaraldurinn er nú frá 25-29 ára. Unglingamæðrum hefur fækkað jafnt og þétt. Fæðingartíðni hér á landi var lengi afar há meðal kvenna undir tvítugu og er nú aðeins 1,4 prósent miðað við 8,4 prósent á sjöunda áratugnum.

Fleiri börn fæðast utan hjónabands á íslandi en í nokkru öðru Evrópuríki. Aðeins þriðjungur fæðist í hjónabandi, rúm 34 prósent. Hins vegar hefur hlutfall barna sem fæðast innan óvígðrar sambúðar haldist stöðugt og er nú rúm 51 prósent.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×