Innlent

250 tonn af stáli á hafsbotni

250 tonn af stáli, sem nota átti til hafnarframkvæmda á Akureyri, hvíla nú í votri gröf. Saga þessarar járnavöru hefur verið reyfarakennd og leið hennar norður þyrnum stráð!

Það ætlar að ganga illa fyrir hafnarstjórann á Akureyri að fá til sín hráefni í stálþil eitt mikið sem nota á í lengingu Oddeyrarbryggju. Þegar kaupa átti stálið virtist sem sú flutningsleið væri ein fær að stálið kæmi frá meginlandi Evrópu til Reykjavíkur og færi þaðan á flutningabílum landleiðina frá Reykjavík til Akureyrar. Þetta fannst Herði Blöndal hafnarstjóra út í hött. Til að minnka slit á þjóðvegum landsins og styrkja sjóflutninga táknrænt krafðist hafnarstjórinn þess í mikilli rimmu að hann fengi stálið sjóleiðina. Og hafði loks sigur.

En örlögin hafa nú orðið til þess að stálþilið liggur á hafsbotni og kemst hvorki land- né sjóleiðina úr þessu. Skýringin? Jú, stálþilið var í pörtum í opnum gámum um borð í flutningaskipinu Kársnesi sem fékk á sig brotsjó nýverið. Gámarnir fóru í hafið með stálinu góða og verður hvorki flutt landleið né sjóleið úr þessu. Þetta þýðir þó ekki að framkvæmdum seinki við höfnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×