Innlent

Óttast að olía bærist í vatnsból

Óttast var að olía bærist í vatnsból Reykvíkinga þegar flutningabíll valt nærri vatnsbólum höfuðborgarinnar í dag. Um 400 lítrar af hrá- og smurolíu láku úr bílnum.

Engin slys urðu á mönnum þegar flutningabíllinn valt við Vatnsverndarsvæðið í Heiðmörk. Gunnar Örn Pétursson, stöðvarstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að svo virðist sem bíllinn hafi farið útaf í hálku, lent út í hrauni og þá hafi komið gat á olíupönnu og hráolíutank. 350 til 400 lítrar af hráolíu hafi lekið, um 40 lítrar af vélarolíu og töluvert af frostlegi.

Vatnsból höfuðborgarinnar eru skammt undan og því var viðbúnaður mikill. Fulltrúar frá Umhverfisráði Reykjavíkurborgar og Orkuveitunni voru kallaðir á vettvang. Það var mat þeirra að vatnsbólinu stafaði ekki hætta af lekanum.

Gunnar Örn segir að þegar hafi tekist að hefja hreinsunarstarf og fengist vörubílar og gröfur vegna framkvæmda í næsta nágrenni. Hreinsunarstarfið gekk geiðlega og því lauk um miðjan dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×