Innlent

Fengu 15 milljónir afhentar í dag

Frá afhendingunni í dag.
Frá afhendingunni í dag. MYND/Barnaspítali Hringsins
Barnaspítali Hringsins fékk á síðasta ári að gjöf alls 300 milljónir króna til styrktar reksturs hágæslueiningar fyrir inniliggjandi börn. Gefendur eru Jóhannes Jónsson kaupmaður og börn hans, þau Kristín Jóhannesdóttir og Jón Ásgeir Jóhannesson. Í dag fékk Barnaspítalinn afhentar 15 milljónir af upphæðinni.

Barnaspítalanum hafa verið afhentar 30 milljónir króna af gjafafénu til verkefnisins. Eftirstöðvar verða greiddar út fjórum sinnum á ári, 15 milljónir króna hverju sinni, þ.e. 60 milljónir árlega í alls 5 ár.

Gjafaféð hefur verið notað til kaupa á tækjabúnaði og þjálfunar starfsfólks til starfa við hágæslueininguna og þannig unnið að uppbyggingu og skipulagi slíkrar einingar á spítalanum. Því starfi verður haldið áfram.

Hágæslueining Barnaspítalans er staðsett á barnadeild 22E. Hjúkrunarfræðingar og sjúkraliðar deildarinnar hafa fengið fræðslu og þjálfun varðandi hjúkrunarmeðferð barna sem þarfnast hágæslu. Þessi þjónusta er viðbót í starfsemi Barnaspítala Hringsins og eykur enn frekar öryggi veikustu barnanna.

Vaktafyrirkomulagi lækna hefur verið breytt til reynslu til þess að auka viðveru sérfræðinga í húsinu á bundnum vöktum, með það fyrir augum að stuðla að bættu öryggi inniliggjandi sjúklinga hverju sinni. Greinileg þörf er fyrir þessa þjónustu á Barnaspítala Hringsins en undanfarna mánuði hafa 10 börn verið vistuð á hágæslu nokkra daga í senn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×