Fótbolti

Motta: Ég tapaði sjálfstraustinu

NordicPhotos/GettyImages

Brasilíumaðurinn Thiago Motta hjá Barcelona hefur nú beðist afsökunar á því að hafa ekki mætt á æfingu hjá liðinu í síðustu viku og ber því við að hann hafi tapað sjálfstraustinu eftir slakan fyrri leik gegn Liverpool í Meistaradeildinni.

Hinn 24 ára gamli miðjumaður var gagnrýndur harðlega eftir 2-1 tap Barcelona á heimavelli gegn Liverpool og mætti ekki á æfingu þegar liðið var að undirbúa sig undir leikinn stóra gegn Real Madrid í deildinni nokkrum dögum síðar.

Frank Rijkaard þjálfari Barcelona ákvað að gefa leikmanninum smá frí til að rétta úr kútnum. "Ég brást fjölda fólks með framkomu minni, en málið er það að ég var í molum vegna þess að ég var búinn að spila mikið. Ég var ekki þunglyndur, en ég vissi bara ekki hvað ég átti að gera og fékk mig ekki til að mæta á æfingu. Þetta var ekki góður leikur af minni hálfu og ég biðst afsökunar á framkomu minni.

Ég tek gagnrýni eins og hver annar, en mér fannst ég fá meiri gagnrýni en aðrir og það skil ég ekki. Ég vil hinsvegar snúa við blaðinu og spila betur, því ég vil umfram allt spila með Barcelona," sagði Brasilíumaðurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×