Körfubolti

Isiah Thomas fékk nýjan samning hjá Knicks

Isiah Thomas er hér til hægri á myndinni þegar Knicks gekk frá samningi við Steve Francis í fyrra, en hann er einn þeirra leikmanna sem hafa verið harðlega gagnrýndir í stjórnartíð Thomas
Isiah Thomas er hér til hægri á myndinni þegar Knicks gekk frá samningi við Steve Francis í fyrra, en hann er einn þeirra leikmanna sem hafa verið harðlega gagnrýndir í stjórnartíð Thomas NordicPhotos/GettyImages

Isiah Thomas, forseti og þjálfari New York Knicks, skrifaði undir nýjan samning við félagið um helgina. Þessi tíðindi komu nokkuð á óvart í ljósi þess að eigandi félagsins hafði áður sagt að hann ætlaði að taka ákvörðun um framtíð Thomas eftir að keppnistímabilinu lyki.

Þó gengi New York hafi alls ekki verið eftir væntingum síðustu ár og launakostnaður verið langt úr hófi fram, hefur Thomas þótt náð ágætum árangri með liðið í vetur eftir að hann tók að sér þjálfun þess. Hann rak Larry Brown úr starfi á síðustu leiktíð og var sú ákvörðun harðlega gagnrýnd. Thomas hefur þó náð þokkalegum árangri með liðið í vetur og er það sem stendur inni í myndinni fyrir úrslitakeppnina í vor.

James Dolan, stjórnarformaður félagsins, sagði í haust að Thomas yrði að ná "viðunandi" árangri með liðinu ef hann ætti að eiga von á því að fá framlengingu á samningi sínum. Það virðist honum hafa tekist ef marka má nýjasta útspil stjórnarformannsins, en þó eru körfuboltasérfræðingar vestanhafs alls ekki á einu máli um málið og sumir vilja meina að Thomas sé bæði skelfilegur forseti og þjálfari. Það á þó eftir að koma í ljós í vor hver það verður sem hlær síðast í málinu, en New York hefur þegar unnið fleiri leiki en allt síðasta tímabil undir stjórn Larry Brown.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×