Innlent

Lokaspretturinn við álverið í Reyðarfirði

Nítján hundruð manns taka nú lokasprettinn við byggingu álvers Alcoa í Reyðarfirði og er starfsleyfi félagsins loks í höfn, eftir óvenju langt ferli.

Starfsmennirnir hafa aldrei verið fleiri og eru Pólverjar í yfirgnæfandi meirihluta, eða um 70 prósent allra starfsmanna. Íslendingar eru aðeins 16 prósent, eða innan við tvö hundruð.

Grípa þurfti til þess ráðs að stækka starfsmannabúðirnar um hundrað herbergi auk þess sem starfsmenn gista á gistiheimilum, hótelum og í bændagistingu á svæðinu.

Eftir rúman mánuð fer að fækka í starfsliðinu.

Umhverfisstofnun hefur nú gefið út nýtt starfsleyfi til Alcoa Fjarðaráls, eftir að lögbundinn kærufrestur rann út án þess að nokkur kæra bærist.

Upphaflega hafði Skipulagsstofnun komist að þeirri niðurstöðu að Alcoa þyrfti ekki nýtt umhverfismat umfram það sem Norsk Hydro hafði fengið, en því hnekkti Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæsitréttur staðfesti það. Ferlið hófst því að nýju og er nú lokið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×