Fótbolti

Koeman hleður pressu á Arsenal

Ronald Koeman
Ronald Koeman NordicPhotos/GettyImages

Ronald Koeman, þjálfari PSV Eindhoven, segir að ekkert megi útaf bera hjá Arsenal í kvöld þegar liðin mætast í síðari leik sínum í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Hollenska liðið hefur 1-0 forystu fyrir leikinn á Emirates í kvöld.

"Ég hef lesið það í blöðunum að þetta sér mikilvægasti leikur Arsenal á leiktíðinni, því Meistaradeildin sé síðasti möguleiki liðsins á að vinna titil á leiktíðinni. Menn geta átt fínan leik í Meistaradeildinni, en ef þeir gleyma sér eitt augnablik - eru þeir fallnir úr keppni," sagði Koeman.

Arsene Wenger er enn að velta því fyrir sér hvort hann eigi að setja Thierry Henry í byrjunarliðið, en sá er enn tæpur vegna meiðsla í læri. Hann kallar á sína menn að vera grimmari en í fyrri leiknum.

"Við töpuðum í Hollandi af því við slökuðum á pressunni í síðari hálfleik. Nú verðum við að vera mjög grimmir og ég hafði það á tilfinningunni í fyrri leiknum að við hefðum það sem til þarf til að vinna PSV. Ég á von á því að PSV muni spila stífan varnarleik og beita skyndisóknum eins og í fyrri leiknum - en þar var vandamál okkar að við náðum ekki að skora," sagði Wenger.

Leikurinn í kvöld verður sýndur beint á Sýn og hefst útsending klukkan 19:30. Bayern - Real Madrid verður beint á Sýn Extra og Man Utd - Lille á Sýn Extra 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×