Innlent

Ofurlaun stjórnarmanna fyrirtækja

Algengt er að laun stjórnarformanna og stjórnarmanna í þeim fyrirtækjum, sem skráð eru í Kauphöllinni, hafi verið tvö- til þrefölduð á nýafstöðnum aðalfundum félaganna.

Viðskiptablaðið geinir frá því að laun stjórnarformanns Glitnis hafi til dæmis tvöfaldast frá því í fyrra og þrefaldast frá árinu áður, og losi nú eina miljón á mánuði.

Laun stjórnarformanns FL Group verða ein komma tvær milljónir á mánuði, sem er þreföldun frá því í fyrra. Þá verða laun hvers stjórnarmanns 350 þúsund á mánuði, sem er þreföldun á tveimur árum.

Laun bankaráðsmanna Landsbankans verða líka 350 þúsund á mánuði, sem er tvöföldun frá í fyrra, en þar sem laun formanns skulu vera þreföld laun óbreytts ráðsmanns, fara þau yfir milljónina.

Laun stjórnarmanna í Exista verða 275 þúsund á mánuði auk 50 þúsund króna fyrir hvern nefndarfund sem þeir kunna að sitja,svo dæmi séu tekin um launaþróun stjórnenda í peningageiranum.

Það skal tekið fram að stjórnarmenn og jafnvel sumir stjórnarformenn eru í fullu starfi annarsstaðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×