Sport

Smali og Stóðhestasýning á Meistaradeild VÍS

Á fimmtudagskvöldið næstkomandi er von á stórskemmtilegu kvöldi fyrir áhorfendur Meistaradeildar VÍS. Hin stórskemmtilega hraðafimi verður háð, en hraðafimin eða smalinn eins og hann er oftast kallaður, er keppnisgrein sem reynir á lipurð og snerpu hestsins og útsjónasemi knapans.

Riðin er þraut í höllinni og er keppt við klukkuna en fyrirkomulagið er ekki ósvipað og í formúlunni, sá sem hlýtur bestan tíma hlýtur flest stig en refsistig eru gefin fyrir felldar hindranir eða keilur. Þessi grein er einstaklega fjörug og skemmtileg fyrir áhorfendur og vænta má frábærra tilþrifa þar sem hver knapi hefur sinn stíl.

Þar sem hraðafimin gengur fljótar fyrir sig en aðrar greinar verður boðið uppá stóðhestasýningu milli forkeppni og úrslita þar sem von er á nokkrum ungum og spennandi stóðhestum og óhætt að lofa því allra besta í þeim efnum. Stóðhestarnir verða betur kynntir til sögunnar þegar líða tekur á vikuna.

Nú þegar eru knapar byrjaðir að æfa sig fyrir smalann og verður brautin uppsett á Ingólfshvoli fram að keppninni sem háð verður á fimmtudagskvöld klukkan 19.30. Þó ber að geta þess að vegna úrtöku fyrir Framhaldsskólamótið í hestaíþróttum verður ekki hægt að æfa á milli klukkan 16 og 21 á miðvikudaginn og eru knapar beðnir um að virða það.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×