Fótbolti

Tveir stuðningsmenn United krömdust

Hér má sjá konu borna meidda úr áhorfendastæðinu í Lens í kvöld
Hér má sjá konu borna meidda úr áhorfendastæðinu í Lens í kvöld AP

Örvænting greip um sig á Stade Felix-Bollaert í Lens í kvöld þegar stuðningsmenn Manchester United krömdust upp við stálhlið á vellinum. Nokkuð hitnaði í kolunum í kjölfarið og þurfti lögregla að grípa til þess að nota táragas til að skakka leikinn. Tveir stuðningsmenn enska liðsins fóru verst út úr uppákomunni en eru ekki alvarlega slasaðir.

Vallarstarfsmenn hleyptu of mörgum stuðningsmönnum United inn á afmarkað svæði á vellinum og á tíma var óttast að stórslys væri í vændum. Þeir ensku brugðust reiðir við svo lögregla varð að nota táragas til að skakka leikinn.

Leikurinn í kvöld var háður í Lens þar sem heimavöllur Lille stenst ekki öryggiskröfur evrópska knattspyrnusambandsins og olli sú ákvörðun furðu margra, því til hafði staðið að færa leikinn á hinn nýstálegri Stade de France í París.

Talsmaður Manchester United sagði félagið ætla að ræða við forráðamenn knattspyrnusambands Evrópu vegna þessarar uppákomu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×