Fótbolti

Mourinho: Wenger hefur aldrei orðið Evrópumeistari

Jose Mourinho talar jafnan tæpitungulaust á blaðamannafundum
Jose Mourinho talar jafnan tæpitungulaust á blaðamannafundum NordicPhotos/GettyImages

Jose Mourinho skaut léttu skoti á kollega sinn Arsene Wenger á blaðamannafundi í dag og gaf þar með tóninn fyrir úrslitaleikinn í enska deildarbikarnum sem fram fer á sunnudaginn. Þar mætast Chelsea og Arsenal.

Mourinho og hans menn mæta gamla liðinu hans Porto í 16-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á morgun og var þjálfarinn spurður hvort hann finndi fyrir aukinni pressu að vinna Evrópumeistaratitilinn með Chelsea í ár - líkt og hann gerði með Porto á sínum tíma.

"Ef ég er undir pressu, ímyndið ykkur þá pressuna sem er á öðrum stjórum. Ég finn ekki fyrir mikilli pressu en ég er með gríðarlegan metnað til að vinna keppnina. Það er vissulega erfitt að vinna sigur í Meistaradeildinni og það er fullt af frábærum knattspyrnustjórum sem ekki hafa náð að vinna keppnina.

Einn af þeim er nú ekki langt frá okkur - hann Arsene Wenger hjá Arsenal. Hann hefur aldrei unnið þessa keppni þrátt fyrir að vera einn besti stjórinn í heiminum. Þið getið alveg hlegið ef þið viljið - en ég hlæ ekki. Wenger hefur aldrei unnið Meistaradeildina, en það hef ég gert - og ég þakka Guði fyrir það," sagði Portúgalinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×