Innlent

Samstarf við Djíbútí

Orkuveita Reykjavíkur og fulltrúar Afríkuríkisins Djíbútí undirrituðu í dag samstarfssamning um þróun jarðhitasvæða til raforkuframleiðslu í Djíbútí. Forseti Djíbútí og stjórnarformaður Orkuveitunnar segja þetta mikilvægan samning sem vonandi tryggi orku í sem flest hús í landinu.

Stjórnmálasambandi var komið á milli Íslands og Djíbútí í júlí 2005. Djíbútí er í norð-austur Afríku og þar búa rúmlega 700 þúsund manns. Í Djíbútí er jarðhita er að finna en hann hefur verið nýttur takmarkað og 85% nýttrar orku er í formi innfluttra jarðeldsneytisefna.

Ráðamenn í Djíbútí hafa nú tryggt sér reynslu og þekkingu Orkuveitu Reykjavíkur til að virkja jarðhitann til raforkuframleiðslu. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, borgarstjóri í Reykjavík, Mahmoud Ali Youssouf, utanríkisráðherra Djíbútís, og Guðlaugur Þór Þórðarson, stjórnarformaður Orkuveitunnar, undirrituðu samstarfssamning í dag.

Guðlaugur Þór segir þetta fyrst og fremst viljayfirlýsingu. Eftir sé að útfæra samkomulagið betur, skoða aðstæður og möguleika. Djíbútí og Ísland eigi margt sameiginlegt hvað varði jarðfræðilegar aðstæður. Þannig séu vonir bundnar við að hægt verði að hjálpa til við að hita upp og hús og framleiða orku í þessu fjarlæga landi.

Ismail Omar Guelleh, forseti Djíbútí, segir að með þessu verði hægt að nýta sérfræðiþekkingu Íslendinga til að þróa vatns- og orkumál Djíbútí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×