Erlent

Barðist í hálftíma við kyrkislöngu um dóttursoninn

Fimm metra kyrkislangan liggur dauð, í gilinu.
Fimm metra kyrkislangan liggur dauð, í gilinu. MYND/AP

Sextíu og sex ára gamall brasiliskur maður barðist í rúma hálfa klukkustund við fimm metra langa kyrkislöngu sem hafði vafið sig utan um átta ára gamlan dótturson hans. Drengurinn var að leika sér í gili, rétt hjá búgarði afans, sem er í Cosorama héraði um 500 kílómetra vestan við Sao Paulo. Joaquim Pereira var að aka heim að búgarðinum, þegar hann heyrði ópin í barnabarninu.

Hann stökk þegar út úr jeppanum og niður í gildið. Þar blasti við honum skelfileg sjón. Stór kyrkislangan hafði vafið sig utan um drenginn og var að kremja hann til dauða. Kyrkislöngur eru ekki eitraðar. Þær drepa bráð sína með því að kremja úr henni líftóruna og gleypa hana svo í heilu lagi. Þær eru ótrúlega teygjanlegar og geta gleypt geitur í heilu lagi og liggja svo á meltunni í einhverjar vikur.

Kyrkislangan sem réðst á Matteus litla Pereira hefði auðveldlega getað torgað honum. Joaquim var þó ekki á því að sjá af dóttursyni sínum og réðst á slönguna með grjót og veiðihníf að vopna. Slangan barðist um hart og vildi ekki sleppa takinu á drengnum, þess í stað reyndi hún að vefja sig utan um afann líka. Þessi bardagi stóð í um hálfa klukkustund, en þá tókst Joaquim loks að koma á hana banahöggi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×