Fótbolti

Real og Barcelona ríkustu félögin

NordicPhotos/GettyImages

Real Madrid er komið aftur í efsta sæti yfir ríkustu knattspyrnufélög Evrópu og erkifjendurnir Barcelona sitja í öðru sætinu. Þetta er niðurstaða ítarlegrar könnunar sem gerð hefur verið og sýnir 20 ríkustu félagslið í Evrópu.

Tekjur Real voru rúmar 292 milljónir evra á tímabilinu 2005-06 og voru meira en 30 milljónum hærri en tekjur Barcelona, en hjá Barcelona jókst hagnaðurinn um heil 25% milli ára en aðeins 6% hjá Real.

Ítalska félagið Juventus er í þriðja sæti yfir ríkustu félögin þrátt fyrir Ítalíuskandalinn fræga og Manchester United, sem var áskrifandi að toppsætinu allar götur til ársins 2004, situr í því fjórða og þar minnkaði hagnaður umtalsvert eftir að liðinu tókst ekki að vinna sér sæti í Meistaradeildinni. Á sama hátt má búast við því að eitthvað eigi eftir að lækka í sjóðum Juventus í næstu uppgjörum í kjölfar þess að félagið var fellt niður í B-deildina og út úr Meistaradeildinni.

AC Milan er svo í fimmta sæti, Chelsea í sjötta, Inter í sjöunda, Bayern í áttunda, Arsenal níunda og Liverpool er tíunda ríkasta félagið í Evrópu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×