Innlent

Íslensku forvarnarverðlaunin í annað sinn

Íslensku forvarnaverðlaunin verða veitt í annað sinn í apríl og standa tilnefningar nú yfir. Markmiðið er að verðlauna þá sem þykja skara fram úr í forvarnastarfi og hvetja þá og aðra til góðra verka. Viðurkenningarnar eru veittar í þrem flokkum: Í fyrsta lagi til fyrirtækis sem skarað hefur framúr í forvörnum, í öðru lagi til einstaklings sem sýnt hefur forystu og frumkvæði í forvörnum og loks til félagasamtaka eða stofnana sem eru í fararbroddi í forvörnum. Einn af þeim þremur sem hlýtur viðurkenningu fær síðan Íslensku forvarnaverðlaunin. Karl Steinar Valsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er formaður sjö manna starfshóps Íslensku forvarnarverðlaunanna. Hann segir gildi forvarna til að auka lífsgæði ótvíræð. "Ég hef séð í mínum störfum innan lögreglunnar þann árangur sem forvarnarstarf hefur skilað." Í fyrra var það Þorsteinn Pétursson rannsóknarlögreglumaður á Akureyri sem hlaut einstaklingsverðlaunin, Slysavarnarskóli sjómanna hlaut fyrirtækjaverðlaunin og í flokki félagasamtaka eða stofnana varð Kiwanisumdæmið Ísland Færeyjar fyrir valinu. Hægt er að senda inn tilnefningar á heimasíðu Forvarnahússins www.forvarnahusid.is til 5. mars 2007.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×