Erlent

Límdu fyrir munn kornabarna

Starfsfólk á sjúkrahúsi í Ekaterínborg, í Rússlandi, límdi fyrir munninn á kornabörnum, til þess að losna við grátinn í þeim. Öll börnin voru munaðarleysingjar. Afsökunin var sú að sjúkrahúsið væri undirmannað. Fréttirnar hafa vakið gífurlega reiði í Rússlandi.

Það var móðir sem var að heimsækja barn sitt á sjúkrahúsinu, sem kom upp um þetta athæfi. Hún heyrði undarleg hljóð í barni á næstu stofu og fór til þess að sjá hvort eitthvað væri að. Henni til skelfingar sá hún að þar lá kornabarn með límband fyrir munninum, svo það gat ekki grátið.

Starfsfólk sjúkrahússins sagði að þetta væri gert við börn sem hefðu enga ættingja til þess að líta til með sér. Starfsfólk væri of fátt til þess að geta sinnt öllum grátandi börnum. Móðirin fór til stjórnenda sjúkrahússins, sem sögðu henni að skipta sér ekki af því sem henni kæmi ekki við.

Konan fór þá beint til heilbrigðisyfirvalda sem gripu í taumana. Í skýrslu rannsóknarnefndar segir að það hafi verið nánast starfsregla að líma fyrir munninn á börnum innan eins árs, til þess að starfsfólkið fengi frið fyrir gráti þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×