Fótbolti

Forseti Barcelona hefur ekki áhyggjur af Saviola

Javier Saviola
Javier Saviola NordicPhotos/GettyImages

Joan Laporta, forseti Barcelona, segist ekki hafa áhyggjur af því hvort Argentínumaðurinn Javier Saviola fari frá félaginu í sumar eða ekki, en bætir því við að hann sé afar ánægður með frammistöðu hans í undanförnum leikjum.

Saviola hefur verið notaður eins og tuskudúkka hjá Barcelona síðustu ár og hefur m.a. verið lánaður til Sevilla og Mónakó. Þess á milli hefur hann verið grafinn á varamannabekk Barcelona, en hefur í raun alltaf náð að sanna sig og skora mörk þegar hann hefur fengið tækifæri - hvort sem er með félags- eða landsliði sínu. Fastlega er reiknað með því að Saviola fari frá Barcelona í sumar þegar samningur hans rennur út.

"Mörkin hans Saviola undanfarið hafa verið mjög ánægjuleg og hann virðist alltaf vera til staðar þegar Barcelona þarf á honum að halda. Ég er ánægður með störf hans, en ég er ekkert hræddur um að hann fari frá félaginu ef hann ákveður að gera það. Ef hann ákveður að vera áfram - er það vegna þess að hann elskar félagið, borgina og félaga sína í liðinu," sagði Laporta, en Saviola hefur m.a. verið orðaður við erkifjendur Barcelona í Real Madrid á liðnum dögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×