Körfubolti

LeBron James fékk flest atkvæði

NordicPhotos/GettyImages

Nú er búið að birta lista yfir þá leikmenn sem verða í byrjunarliðum Austur- og Vesturdeildar í Stjörnuleiknum í NBA deildinni, sem haldinn verður í Las Vegas í næsta mánuði. LeBron James sló Kínverjanum Yao Ming við að þessu sinni og fékk flest atkvæði aðdáenda um allan heim - rúmar 2,5 milljónir atkvæða.

Shaquille O´Neal var valinn í lið Austurdeildarinnar í 14. skiptið í röð, en þar með jafnaði hann árangur Karl Malone og Jerry West sem skiptu metinu með sér. Gilbert Arenas átti líklega stærsta stökkið í valinu að þessu sinni, en hann var rúmum 214 þúsund atkvæðum á eftir Vince Carter fyrir tveimur vikum, en náði honum og komst í fyrsta sinn í byrjunarliðið. Hann á það eflaust að þakka frábærri frammistöðu sinni í síðustu leikjum og er vel að því kominn að vera valinn í byrjunarlið - öfugt við menn eins og O´Neal og Yao Ming, sem eru búnir að vera meiddir meira og minna í allan vetur. Ming hefur þegar lýst því yfir að hann muni ekki spila í leiknum. Hér fyrir neðan má sjá byrjunarliðin.

Austurdeild:

Dwyane Wade - Miami, Gilbert Arenas - Washington, Shaquille O´Neal - Miami, LeBron James - Cleveland og Chris Bosh - Toronto

Vesturdeild:

Kobe Bryant - LA Lakers, Tracy McGrady - Houston, Yao Ming - Houston, Tim Duncan - San Antonio og Kevin Garnett - Minnesota.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×