Fótbolti

Calderon ekki hættur að hrauna yfir Beckham

David Beckham á ekki von á blíðuhótum frá forseta Real fram á vorið
David Beckham á ekki von á blíðuhótum frá forseta Real fram á vorið NordicPhotos/GettyImages

Forseti Real Madrid gerði í dag endanlega út um vonir David Beckham um að losna fyrr undan samningi sínum við félagið í dag þegar hann lýsti því yfir að ekkert lið í heiminum hefði viljað bjóða honum samning í janúarglugganum og að hans biði ekkert í Bandaríkjunum annað en að gerast miðlungsleikari í Hollywood.

"David Beckham verður ekkert annað en miðlungsleikari í Hollywood þegar hann fer til Bandaríkjanna. Það sýnir sig best núna hvað starfslið okkar hafði rétt fyrir sér með því að mæla ekki með frekari samningi við hann - því ekki eitt einasta lið í heiminum vildi taka við honum - ekki einu sinni þó hann væri með lausa samninga," sagði Ramon Calderon.

Fabio Capello, þjálfari Real Madrid, vildi ekki taka það í mál að láta Beckham spila með það hangandi yfir sér að vera búinn að semja við annað lið - en Frank Rijkaard, þjálfari Barcelona, segist ekki sjá neitt að því. Hann sjálfur nýtti sér krafta Henrik Larsson á síðustu leiktíð, en Larsson var lykilmaður í sigri Barcelona á Arsenal í úrslitaleik Meistaradeildarinnar þó hann hefði þá löngu verið búinn að semja við lið Helsingborg í heimalandi sínu.

"Allir leikmenn vilja sigra og þó leikmaður sé búinn að skrifa undir samning hjá öðru liði - þýðir ekki endilega að hann geti ekki spilað vel. Maður þarf bara að skoða hvað er liðinu fyrir bestu og ég myndi ekki grafa leikmann á varamannabekknum bara af því að hann væri á förum annað," sagði Rijkaard.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×