Erlent

Engin áhrif á hlýnun jarðar

Hlýnun jarðar síðustu áratugina stafar ekki af aukinni virkni sólar, því virkni hennar hefur verið að minnka frá árinu 1985.
Hlýnun jarðar síðustu áratugina stafar ekki af aukinni virkni sólar, því virkni hennar hefur verið að minnka frá árinu 1985. MYND/AFP

Virkni sólarinnar hefur engin áhrif haft á hlýnun andrúmsloftsins hér á jörðinni síðustu áratugina. Þvert á móti, því virkni sólarinnar hefur minnkað nokkuð síðustu tuttugu árin, en á þeim tíma hefur hitinn í andrúmsloftinu hækkað.

Þetta er niðurstaðan úr rannsókn sem tveir vísindamenn, Mike Lockwood frá Bretlandi og Claus Fröhlich frá Sviss, hafa gert. Frá þessu er skýrt á vefsíðu breska útvarpsins, BBC.

Með rannsókninni sýna þeir einnig fram á að hlýnunin síðustu áratugina geti ekki stafað af áhrifum sólarinnar á geimgeisla, eins og nýlega hefur verið haldið fram.

Lockwood og Fröhlich ákváðu að gera þessa rannsókn í framhaldi af sýningu sjónvarpsþáttarins The Great Global Warming Swindle, þar sem því var haldið fram að hlýnun jarðar þyrfti engan veginn að vera af mannavöldum, eins og oftast er haldið fram.

Lockwood segist hafa tekið eftir því, að í þeim þætti hafi ekki verið byggt á gögnum eftir árið 1980. Fram að þeim tíma hafði virkni sólarinnar verið að aukast jafnt og þétt, en eftir 1985 hefur hins vegar dregið úr virkni sólarinnar og jafnframt úr áhrifum hennar á geimgeisla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×