Fótbolti

Barcelona vill halda Eiði Smára

Er á Íslandi þessa stundina þar sem hann æfir vel.
Er á Íslandi þessa stundina þar sem hann æfir vel. nordicphotos/afp

Arnór Guðjohnsen, faðir og umboðsmaður Eiðs Smára Guðjohnsen, greindi frá því í gær að Barcelona vildi halda landsliðs­fyrirliðanum í sínum röðum. Þrálátur orðrómur hefur verið um að Eiður sé á leið aftur til Englands en hann hefur alltaf sagst vilja vera áfram í herbúðum Barcelona. Þar sem viljinn er beggja vegna eru litlar líkur á því að Eiður Smári fari í sumar.



„Þeir (Barcelona) sögðu, „ef þú vilt glaður vera hér áfram, viljum við gjarnan að þú verðir það“,“ sagði Arnór við Sky-fréttastofuna í gær. Arnór sagði einnig að hann hefði ekki rætt við nein félög um hugsanleg kaup á Eiði Smára.



Eiður er staddur á Íslandi þessa stundina og sagði Arnór að Eiður hefði í nógu að snúast. „Hann er mjög ákveðinn, hann er að æfa á fullu hérna á Íslandi í fríinu sínu og hann ætlar að vera vel undirbúinn fyrir næsta tímabil,“ sagði Arnór.



Þjálfarar og læknalið Barcelona settu saman æfingaáætlun fyrir hvern og einn leikmann til að vinna að í sumar, áður en leikmenn koma saman til æfinga á undirbúningstímabilinu. Leikmenn félagsins hófu þessar æfingar í vikunni og ber þeim að æfa þrisvar í viku, kvölds og morgna, og svo oftar þegar nær dregur tímabilinu.



Leikmenn félagsins eru einnig hvattir til að slappa af inn á milli og spila golf eða strandblak.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×