Fótbolti

Liverpool er eins og ítalskt lið fyrir tíu árum

nordic photos/getty

Gennaro Gattuso, leikmaður AC Milan, segir að Manchester United sé hæfileikara lið en Liverpool, sem mætir Milan í úrslitum Meistaradeildar Evrópu í Aþenu. Milan sló Manchester United út í undanúrslitunum.

„Liverpool er eins og ítalskt lið fyrir tíu árum. Allar sendingar eru langar og liðið reynir að verjast með alla menn fyrir aftan boltann og einn framherja," sagði Gattuso.

„United er með mun teknískari leikmenn. Þeir eru fljótir og geta gert eitthvað þegar þeir fá boltann. Liverpool hefur ekki slíka leikmenn í sínum röðum."

Hann segir enn fremur að úrslitaleikurinn nú verði öðruvísi en sá fyrir tveimur árum þegar liðin mættust af sama tilefni í Istanbúl. Þar vann Liverpool í vítaspyrnukeppni eftir að framlengdum leik lauk með 3-3 jafntefli.

„Ég lofa því að þessi úrslitaleikur verði öðruvísi. Það er mikilvægt að leiðrétta það sem miður fór þá." Steven Gerrard, fyrirliði Liverpool, viðurkenndi að það hefði komið honum á óvart að AC Milan skyldi komast í úrslitin en ekki Manchester United.„Ég er sannfærður um að við getum farið til Aþenu og komið með bikarinn aftur heim. Milan er þó með frábært lið og við vitum að leikurinn verður afar erfiður. Við þurfum að sýna okkar besta leik. Ég hélt að Liverpool og Manchester United myndu mætast í úrslitunum en leikmenn Milan eiga hrós skilið þar sem þeir voru frábærir í leiknum og unnu hann verðskuldað."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×