Innlent

Flugstoðir og Samgönguráðuneyti undirrita þjónustusamning

MYND/Vísir

Skrifað var undir þjónustusamning samgönguráðuneytisins og Flugstoða ohf, um þjónustu á sviði flugvallarekstrar og flugumferðarþjónustu kl. 16.00 í dag, föstudaginn 29. desember 2006, en alls hafa hátt í þrjátíu flugumferðarstjórar ráðið sig til starfa hjá Flugstoðum, sem hefur rekstur á miðnætti 1. janúar næstkomandi.

Flugumferðarstjórar munu vinna eftir sérstakri viðbragðsáætlun í nánu samstarfi við nærliggjandi flugstjórnarmiðstöðvar. Markmið viðbragðsáætlunarinnar er að tryggja flugöryggi á flugstjórnarsvæðinu og sjá til þess að röskun verði lítil sem engin á millilanda- og innanlandsflugi, þótt hugsanlega verði um tímabundinn skortur á flugumferðarstjórum í flugstjórnarmiðstöðinni í Reykjavík.

Aðgerðaráætlunin hefur þegar verið kynnt Alþjóðasamtökum flugfélaga (IATA) og þeim flugfélögum og flugrekstraraðilum, íslenskum sem erlendum sem fljúga um flugumsjónarsvæðið.

Viðbúnaðaráætlunin felur í sér breytingu á skipulagi flugumferðar á íslenska flugstjórnarsvæðinu sem mun að mestu leyti fylgja föstum fyrirfram ákveðnum ferlum og flughæðum. Innanlandsflugið mun á sama hátt fylgja föstum ferlum í leiðarflugi á milli flugvalla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×