Innlent

Kirkjusókn með mesta móti

Kirkjusókn var með besta móti á landinu öllu í dag og í gær, enda veður með eindæmum gott og blakti varla logi á útikerti. Hjá Íslendingum er sterk hefð fyrir því að hefja jólahald með því að fara í aftansöng, en það færist í vöxt á tekið sé undir í sálmasöng.

Almennt er kirkjusókn góð um land allt yfir jóladagana, en í gær er talið að veður hafi stuðlað að góðri aðsókn, en það var með eindæmum gott. Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur í Reykjavík vestra segir kirkjusókn hafa verið einstaklega góða, en á þriðja þúsund manns sóttu þrjár messur í Hallgrímskirkju í gær og í dag.

Í Grafarvogskirkju mættu yfir eitt þúsund manns til aftansöngs í gær og á jólamessan í dag var fjölmenn. Að sögn Séra Vigfúsar Þórs Árnasonar færist það í vöxt að kirkjugestir taki undir í sálmasöng í þekktum sálmum. Hann segir það hafa verið stórkostlegt að heyra í þúsund manna kór þar sem fólk var með tendruð kerti og söng "Heims um ból."

Í dag messaði Séra Vigfús svo á hjúkrunarheimilinu Eir, en þar dugði ekkert minna en Stradivarius fiðla sem Hjörleifur Valsson spilaði á af sinni alkunnu snilld. Þess má til gamans geta að þetta er eina fiðlan eftir Antonio Stradivari, en ríkisútvarpið á fiðlu eftir samtímamann hans, Gvarnerius del Gesu.

Hefð fyrir kirkjusókn á aðfangadag er mjög sterk hérlendis, en miðnæturmessum hefur fjölgað mikið, enda hefur eftirspurn eftir þeim farið vaxandi. Aukin fjölbreytni í kirkjuhaldi á aðventunni hefur hjálpað til með vaxandi aðsókn, en tónleikahald hefur færst mjög í vöxt í kirkjum í aðdraganda jólanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×