Innlent

Ríkisstjórnin stendur ekki í hagstjórn

Ríkisstjórnin ætlar sér ekkert hlutverk í hagstjórninni. Þetta staðfestir nýtt lánshæfismat Standard og Poor's, segir formaður Samfylkingarinnar. Forsætisráðherra efast um forsendur matsfyrirtækisins.

Gengi krónunnar og hlutabréf í Kauphöllinni lækkuðu í gær eftir að fréttir bárust af lækkuðu lánshæfismati Standard og Poor's í gær. Forsætisráðherra sagði í gær að matið væri óheppilegt og óvænt. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur formanni Samfylkingarinnar kemur matið ekki á óvart enda hafi aðgerðir og aðgerðaleysi ríkisstjórnarinnar sýnt að hún ætli sér ekkert hlutverk í hagstjórn landsins. Lánshæfismatið renni stoðum undir þá fullyrðingu. "Það sést á fjárlögunum, aðgerðarleysi í stóriðjuáformunum, og það er auðvitað ekkert skrýtið að við þær aðstæður að það sér hér veruleg þensla, vextir í sögulegu hámarki, fyrirtækin séu að flýja krónuna og það komi verra lánshæfismat en verið hefur."

Forsætisráðherra dregur hins vegar í efa þær forsendur sem Standard & Poor's gefa sér. "Ég er algjörlega ósammála þeim forsendum sem þeir gefa sér og snúa að því með hvaða hætti fjárlagafrumvarpið fór í gegnum alþingi," segir Geir Haarde forsætisráðherra. Stóra breytingin, segir Geir, var lækkun virðisaukaskatts á mat. "Ég vek athygli á því að sú breyting var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum á alþingi. Þessir aðilar virðast leggja eitthvað annað mat á það en við."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×