Innlent

Skipulagsbreytingum laumað inn bakdyramegin

Skipulagsbreytingum, sem gætu allt að tvöfaldað íbúafjölda Kársness, er lætt inn bakdyramegin án þess að kynna framtíðarskipulag svæðisins fyrir íbúum í vesturbæ Kópavogs, segir oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.

Mikil uppbygging er fyrirhuguð í Vesturbæ Kópavogs á næstu árum. Framkvæmdir eru þegar hafnar á Kópavogstúni, byrjað er að fylla upp fyrir Bryggjuhverfi norðan megin við Nesið, þá er stórskipahöfn í bígerð og á svokölluðu endurbótasvæði er fyrirhugað að byggja hátt í 1000 íbúðir. Samanlagt getur þetta þýtt hátt í tvöföldun íbúafjölda í Vesturbæ Kópavogs.

Húsfyllir var hjá Samfylkingunni í Kópavogi í gærkvöldi þar sem þessar hugmyndir voru ræddar en Samfylkingin gagnrýnir að uppbyggingin skuli kynnt í bútum. "Það er ekki búið að kynna þetta heildarsamhengi fyrir íbúum Kársness og Vesturbæ Kópavogs. Þegar verið er að pota inn einstaka reitum í kynningu hafa þeir ekki hugmynd um heildarsamhengið," segir Guðríður Arnardóttir, oddviti Samfylkingarinnar í Kópavogi.

Það var samþykkt í bæjarstjórn fyrir rúmum þremur mánuðum að einstakir reitir yrðu ekki kynntir fyrr en búið væri að kynna rammaskipulag, eða eins konar framtíðarsýn fyrir svæðið. "Samhliða þá þessum deiliskipulagsreitum og bíða með frekari skipulagskynningar þar til því væri lokið en það var ekki staðið við það. Við höfum heyrt í íbúum hérna á Kársnesinu og það er afar þungt í þeim hljóðið. Þeim finnst eins og það sé verið að lauma hér bakdyramegin skipulagsbreytingum sem koma til með að hafa veruleg áhrif á búsetuskilyrði á Kársnesinu."

Skipahöfn fer bráðlega í kynningu en hún hefur verið samþykkt í bæjarstjórn. Samfylkingin leggst gegn stórskipahöfn en vill uppbyggingu bryggjuhverfis með kaffihúsum og listamannahverfi. "Við höfum hérna tækifæri til að gera þetta að mikilli perlu fyrir íbúa bæjarins og við sjáum ekki að stórskipahöfn sé til að bæta hér umferðarmál eða ásýnd."

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×