Innlent

Stofnfundur samráðsvettvangs trúfélaga á morgun

Samráðsvettvangur trúfélaga heldur stofnfund sinn á morgun í Tjarnarsal Ráðhússins. Að vettvangnum standa þrettán trúfélög og er markmiðið að stuðla að umburðarlyndi og virðingu milli fólks af ólíkum lífsviðhorfum, trúarhópum og trúarbrögðum og standa vörð um trúfrelsi og önnur mannréttindi.

Öll trúfélög sem fengið hafa skráningu hjá dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og þannig myndað tengsl við ríkisvaldið hafa rétt á aðild að samráðsvettvanginum eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Alþjóðahúsi.

Á stofnfundinum munu forseti Íslands, formaður mannréttindanefndar Reykjavíkurborgar og framkvæmdastjóri Alþjóðahússins flytja ávarp en Guðrún Dögg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands, verður fundastjóri.

Stofnaðilar að Samráðsvettvangi trúfélaga eru: Þjóðkirkjan, Fríkirkjan í Reykjavík, Kirkja sjöunda dags Aðventista á Íslandi, Fríkirkjan Vegurinn, Baháísamfélagið, Félag Múslima á Íslandi, Heimsfriðarsamband fjölskyldna, Kaþólska kirkjan, Krossinn, Búddistafélag Íslands, Söfnuður Moskvu-Patríarkatsins í Reykjavík og Ásatrúarfélagið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×