Innlent

Nær allur afgangur fjárlaga fari til elli- og örorkulífeyrisþega

Stjórnarandstaðan leggur til að nær allur áætlaður tekjuafgangur á fjárlögum næsta árs, eða ríflega sjö milljarðar króna, fari til að bæta stöðu elli - og örorkulífeyrisþega. Talsmenn stjórnarandstöðunnar segja tillögurnar skref í áttina að samræmdum málflutningi hennar fyrir kosningarnar í vor.

Samfylkingin, Vinstri - grænir og Frjálslyndi flokkurinn boðuðu til sameiginlegs fréttamannafundar í Alþingishúsinu í morgun þar sem kynntar voru tillögur til breytingar á fjárlögum við aðra umræðu þeirra sem hófst á Alþingi í morgun. Tillögurnar lúta allar að kjörum elli- og örorkulífeyrisþega.

Stjórnarmeirihlutinn gerir ráð fyrir að afgangur á fjárlögum næsta árs verði 8,9 milljarðar króna og vill stjórnarandstaðan að ríflega sjö milljörðum af þeirri upphæð verði varið til bóta á kjörum elli - og örorkulífeyrisþega.

Katrín Júlíusdóttir, talsmaður stjórnarandstöðunnar, sagði á blaðamannafundi í morgun að kjarninn í tillögum stjórnarandstöðunnar væri stórfelldar kjarabætur til elli- og örorkulífeyrisþega. Lagt væri til að frítekjumark hækkaði úr 300 þúsund krónum ári, eins og stjórnarmeirihlutinn leggur til, í 900 þúsund krónur og nái ekki eingöngu til ellilífeyrisþega heldur örorkulífeyrisþega líka. Þá sé lagt til að tekjutrygging ellilífeyrisþega hækki í 85 þúsund á mánuði og 86 þúsund hjá örorkulífeyrisþegum auk breytinga á launavísitölu frá því í sumar.

Með þessum tillögum segir Katrín að stjórnarandstaðan leggi til að tenging lífeyrisgreiðslna við atvinnu- og lífeyristekjur maka verði að fullu afnumin. Þetta hafi lengi verið baráttumál lífeyrisþega.

Samtals eru þetta rúmir sjö milljarðar króna sem stjórnarandstaðan segir rúmast innan fjárlagarammans, en í tillögum stjórnarmeirihlutans er gert ráð fyrir 8,9 milljarða afgangi á fjárlögum sem yrði aðeins um milljarður ef tillögur stjórnarandstöðunnar ná fram að ganga.

Það er stutt í kosningar og því spurning hvort þessar tillögur séu fyrsta skrefið í sameiginlegri stefnuyfirlýsingu stjórnarandstöðuflokkanna fyrir kosningar. Katrín segir stjórnarandstöðuna hafa sýnt að í þessu máli standi hún saman og leggi á það mikla áherslu. Tillögur stjórnarandstöðunnar endurspegli hvað sameini þessa flokka, þ.e. að það þurfi að ráðast í það verkefni að byggja velferðarkerfið upp að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×