Innlent

Árni Páll kallaður aftur til skýrslutöku vegna hlerana

Árni Páll Árnason lögmaður verður kallaður aftur í skýrslutöku hjá lögreglustjóranum á Akranesi eftir svarbréf utanríkisráðherra. Enginn er ennþá grunaður um símhleranirnar í utanríkisráðuneytinu en fyrsta áfanga rannsóknarinnar er lokið.

Árni Páll Árnason sendi Valgerði Sverrisdóttir utanríkisráðherra bréf þar sem hann óskaði eftir leiðbeiningum ráðuneytisins um hverju hann mætti skýra lögreglu frá án þess að brjóta þann trúnað sem hann gekkst undir í störfum sínum fyrir carnarmálaskrifstofu ráðuneytisins á þeim tíma sem sími hans á að hafa verið hleraður.

Árni Páll vill ekki tjá sig um innihald svarbréfsins en Ólafur Hauksson, lögreglustjóri á Akranesi, segir að fleiri spurningar verði lagðar fyrir Árna Pál eftir að bréfið barst. Aðstoðarmaður ráðherra vill ekki tjá sig um hvort þagnarskyldu hafi að einhverju leyti verið aflétt af Árna.

Ólafur Hauksson neitar því að í sjónmáli sé að kalla grunaðan í yfirheyrslu. Skýrslur af átta til tíu manns voru teknar upp á myndband í fyrsta áfanga rannsóknarinnar og næstu daga verður farið í að skrifa niður framburð vitna eftir myndböndunum.

Ólafur segir ekki hægt að fullyrða að einhver fái stöðu sakbornings þegar rannsókn verður fram haldið. Hann bendir hins vegar á að sú staða geti komið upp við skýrslutökur að einstaklingur sem gefi skýrslu sem vitni veiti upplýsingar sem leiði til þess að réttarstaða hans breytist í stöðu sakbornings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×