Erlent

Olmert sagður hafa þegið mútur

Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, er sagður hafa þegið mútur vegna einkavæðingar banka þegar hann var starfandi fjármálaráðherra í fyrra.
Ehud Olmert, forsætisráðherra Ísraels, er sagður hafa þegið mútur vegna einkavæðingar banka þegar hann var starfandi fjármálaráðherra í fyrra. MYND/AP

Dómsmálaráðherra Ísraels rannsakar nú ásakanir þess efnis að Ehud Olmert, forsætisráðherra landsins, hafi þegið mútur sem starfandi fjármálaráðherra í fyrra.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC, að ásakanirnar voru birtar á ísraelskri vefsíu í dag. Þar segir að Olmert hafi þegið mútur þegar stór banki var einkavæddur.

Olmert hefur neitað sök. Hann hefur verið borinn þungum sökum um spillingu en ekki formlega kærður.

Í yfirlýsingu frá dómsmálaráðuneytinu segir að ekkert hafi verið ákveðið um það hvort forsætisráðherrann verði ákærður. Ísraelska lögreglan hafi ekki hafið rannsókn.

Fleiri ráðamenn í Ísrael hafa verið sakaðir um ýmis brot síðustu misseri. Moshe Katsav sætir nú rannsókn vegan ákæru um kynferðislega áreitni auk þess sem Haim Ramon, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Tzahi Hanegbi, fyrrverandi umhverfisráðherra, eru báðir ákærðir fyrir misferli í starfi. Allir hafa þeir neitað sök.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×