Erlent

Óvíst um framsal

Bandaríski kvikmyndaleikarinn Wesley Snipes í hlutverki vampírubanans Blade.
Bandaríski kvikmyndaleikarinn Wesley Snipes í hlutverki vampírubanans Blade. MYND/New Line

Stjórnvöld í Namibíu hafa ekki fengið beiðni frá bandarískum stjórnvöldum um að framselja kvikmyndaleikarann Wesley Snipes sem er ákærður fyrir að hafa svikið jafnvirði rúmlega 800 milljóna íslenskra króna undan skatti. Snipes er nú staddur í Namibíu við tökur á næstu kvikmynd sinni.

Lidwina Shapwa, talsmaður dómsmálaráðuneytisins í Namibíu, segir að ráðamenn þar í landi hafi frétt af ákærunni gegn Snipes í fjölmiðlum. Engin formleg beiðni um framsal hafi borist.

Snipes er sagður hafa fengið 12 milljónir bandaríkjadala, jafnvirði rúmlega 826 milljóna íslenskra króna, endurgreidda á fölskum forsendum. Hann er nú eftirlýstur og að sögn fjölmiðla hefur handtökuskipun verið gefin út á hendur honum.

Snipes, sem er 44 ára og hefur leikið í rúmlega þrjátíu kvikmyndum, þar á meðal Jungel Fever, White Men Can´t Jump og Blade. Hann gæti átt yfir höfði sér allt að 16 ára fangelsi verði hann sakfelldur.

Framleiðandi nýjustu myndar Snipes segir þetta mál ekki hafa áhrif á tökur hennar og Snipes verði í Namibíu þar til þeim ljúki um miðjan desember.

Bandaríkin og Namibía hafa ekki gert með sér samkomulag um framsal á eftirlýstum mönnum eða föngum. Það kom í ljós í síðasta mánuði þegar það uppgötvaðist að tölvusérfræðingurinn og milljónamæringurinn Jacob "Kobi" Alexander hafði búið um nokkurt skeið í Namibíu en hann var eftirlýstur. Hægt er að leggja framsalsbeiðni fyrir dómstóla landanna tveggja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×